Gleðilega páska

Feitasta og þyngsta manneskjan á heimilinu fékk málsháttinn "Enginn er svo rammvilltur að ei rati í munninn". Og á meðan hún var að melta málsháttinn, kláraði hún næstum allt páskaeggið (og þetta var ekki lítið páskaegg)Frown

Skírdagur

Í dag voru allar partasölur lokaðar. Þá var ekkert annað hægt að gera en skreppa til Selfoss að  sjá hvar Fischer er grafinn. ýmisl 014 Ég tók nokkrar myndir og svo fórum við í fermingarveislu í Golfskálanum. sem er þarna rétthjá kirkjunni. Mjög góður matur í veislunni og kökurnar hrikalega góðar. Ég át aðeins of mikið. En á morgun ætla ég að keyra strætó. 

Bíl-hlutir

Jæja, verð að segja ykkur hvernig gengur með bílasmíðina. Í gær var hringt í mig frá Vöku kl. 9:19 og tilkynnt að þeir væru búnir að finna húdd og bretti fyrir mig. Ég var föst að keyra strætó til kl. 14:27 en fór svo í leiðangur eftir vinnu. Ég fór í stillingu og keypti bremsuborða, kostuðu ekki nema 2307krónur, svo fór ég í Vöku og keypti húdd og bretti sem kostuðu bara 8 þúsund krónur. En ég er búin að reikna út að það verður frekar seinlegt og dýrt að smíða bíl svona, held að ég verði bara að aflétta þessu bílakaupabindindi af mér. Það er líka svo óþægilegt fyrir mig að vera í svona bindindi. Ég var að keyra strætó, leið 3 og var mjög djúpt hugsi um hvernig ég gæti farið framhjá þessu bindindi, hvort ég gæti keypt bíl og sett Corollu eða Elöntru upp í og borgað eitthvað á milli eða hvort ég ætti að kaupa einn bíl og setja tvo uppí. Og á meðan þessar djúpu hugsanir fóru fram í hausnum á mér, gleymdi ég að beygja inn í Vesturbergið, ég lenti í smá vandræðum, þurfti að snúa við og bakka, en farþegarnir kvörtuðu ekki og bílaumferðin stoppaði á meðan ég bakkaði, en þetta bindindi er farið að trufla vinnuna hjá mér, neyðist því til að hætta í þessu bílakaupastoppi  og vonandi fáið þið fréttir af bílakaupum hjá mér fljótlegaCool

Nokkuð góður dagur

Vegna fjölda áskorana verður framhald á daglegum bloggfærslum hjá mér.

Í morgun keyrði ég strætó! Yfirmennirnir vita að ég er mikil símadama svo að ég fékk Símavagninn. Svona lítur hann út:Strætó 074 Ég keyrði 3 ferðir á leið 6 og var búin að því fyrir kl.11.

Þegar ég kom heim hugsaði ég og hugsaði hvað ég gæti gert. Ég reyndi að finna út hvort ég gæti kannski platað einhvern til að kaupa bíl. Ég reyndi að hringja í Önnu frænku en hún svaraði ekki þegar ég hringdi fyrst, svo var á tali hjá henni. Björgvin var svo nývaknaður þegar ég hringdi í hann og svo varð síminn hjá honum rafmagnslaus svo að ég gat ekki platað hann. Það endaði með því að ég fór í Vöku og keypti eitt ljós hjá þeim, ég ætlaði líka að kaupa frambretti og húdd en það var niðri í kjallara og þeir hringja í mig þegar ég má sækja það. Svo þarf ég bara að kaupa nokkrar hurðir, vél, og eitthvað fleira og þá get ég smíðað mér bíl! Það er ekkert í bílakaupabindindinu sem bannar mér að kaupa varahluti. Svo er ég líka búin að kaupa ventalokspakkningu. Þetta verður kannski svolítið seinlegtBlush  


Sunnudagur

Ég keyrði strætó í dag til kl. 16:48. Enginn bíll keyptur í dag Frown

Matarboð sem endaði vel....

Í dag var skemmtilegur dagur hjá mér. Ég var í skólanum í morgun að læra bókhald. Svo fór ég til Lenku skákkonu. Einhver maður keyrði á bílinn hennar og vill borga tjónið sjálfur og Lenka bað mig að koma og kíkja á skemmdirnir og ráðleggja henni hvað væri best að gera. Hún bauð mér í hádegismat og ég gaf Adam, syni hennar, sem fæddist 10.10.2007, fullt af fötum sem ég keypti á Kanarý. Hann fékk öll bláu fötin sem ég keypti þar Wink 

Ég skoðaði svo skemmdirnar á bílnum hennarBíll 001 og eins og þið sjáið er bíllinn nánast ónýtur, brotið parkljós og stuðarinn töluvert svartur. Á meðan við borðuðum kjúklinginn töluðum við um bíla, ég sagði þeim frá Elöntrunni sem ég keypti um daginn. Þau ætluðu varla að trúa mér að það væru bílaauglýsingar á barnaland.is. Ómar sagðist vilja kaupa nýrri bíl, hann hefur á tilfinningunni að bíllinn hennar Lenku sé að verða of gamall en það er árgerð 1998 og svo eftir að það var keyrt á hann þá er þetta auðvitað ekki spurning. Ég spurði hvort ég ætti ekki að kíkja á auglýsingar á barnaland fyrir þau, Omar kom strax með tölvu og setti fyrir framan mig, ég fór inn á barnalandið og skoðaði nokkrar blaðsíður af auglýsingum en fann ekkert bitastætt, svo fór ég inn á bilasolur.is og eftir að hafa yfirheyrt Omar um hvernig bíl hann vildi helst, setti ég leitarvélina á Toyota-skutbíll-verð 0-600 þús.kr. Það komu nokkrir upp og ég smellti á einn árgerð 1999 sem kostaði 480 þúsund en það var bara til að sýna þeim mynd af bílnum, þau skoðuðu myndirnar og leist vel á þessa tegund af bíl, alveg passlega stór. Ég sá svo allt í einu að það var sérstakt tilboðsverð á þessum bíl, 190 þúsund krónur, ég benti þeim á það og Omar varð mjög spenntur, hann rétti mér síma og ég hringdi á bílasöluna. Klukkan var 15:25 þegar ég hringdi, bílasalinn sem svaraði sagði að það væri opið til kl.16 og bíllinn væri hjá þeim, en það væri endurskoðun á bílnum, þarf að skipta um dempara og laga ballans-stöng. Omar dreif sig í jakka og spurði hvort ég hefði ekki tíma til að skoða bílinn. Við fórum svo upp á Eirhöfða og skoðuðum bílinn, Omar keyrði einn hring og leist vel á bílinn. Bílasalarnir hættu við að loka kl. 16:00 og Omar keypti bílinn. Hann dró bara upp debetkortið og borgaði brosandi. Á meðan bílasalinn var að renna kortinu í posann sagði Omar við mig: "Bíllinn er ódýrari en tölva!"  Svo var eitthvað páskatilboð þarna og hann fékk páskaegg nr.5 frá Nóa með bílnum!Bíll 003Flottur bíll!!!

Omar Salama er nú kominn í hóp hamingjusamra Toyota Corolla eigenda Grin

 


Föstudagur

Í dag átti ég að vera í fríi frá strætó, en ég var beðin um að keyra nokkrar ferðir á leið 15 og ég var svo sem ekki búin að plana neitt sérstakt svo að ég lét til leiðast. En það kostaði að ég þurfti að vakna snemma, ég var smástund að ákveða á hvaða bíl ég færi í vinnuna og Elantran varð fyrir valinu, kannski af því að í geislaspilaranum í henni eru Gamlar myndir, Kim Larsen-diskur Péturs Kristjánssonar. Ég hlustaði á lag nr. 5, stillti frekar hátt (ég var ein í bílnum) og söng með. Góð byrjun á föstudegi. Ég var komin á Hesthálsinn kl. 6:25 og byrjaði svo á Hlemmi kl. 6:47. Ég keyrði bara til kl. 10:00 en þá fór ég með vagninn aftur upp á Hestháls. Ég fór svo heim á Elöntrunni og hlustaði aftur á lag nr.5. Eftir að hafa sofið í ca. klukkutíma í hádeginu fór ég aftur í uniformið, kvaddi alla bílana mína og labbaði niðrí Mjódd, þar tók ég leið 24 (kl.12:48) upp á Höfðabakka, þaðan labbaði ég á Hesthálsinn (hressandi göngutúr), fann aftur vagninn sem ég var á í morgun og í þetta skiptið byrjaði ég á Reykjavegi í Mosó, kl.13:46. Veðrið var alveg frábært í dag, vorið er alveg að fara að koma, ég sá krakka labba heim úr skólanum og þau voru ekki í úlpunum, þau héldu á þeim. Það var mikið betra veður eftir hádegi heldur en fyrir. Í pásunum í Mosó nennti ég ekki að vera inni í gámnum, veðrið var svo frábært. Gaman að sjá snjóinn í Esjunni. Ég tók nokkrar myndir.Strætó 062Ég keyrði svo til kl. 18:16, en þá var vaktin búin á Hlemmi, þá var ég svo heppin að Valdi var staddur þar og hann keyrði mig heim, með viðkomu í Nettó, ég varð að kaupa sætar kartöflur. Ég er nefnilega búin að venja okkur á sætar kartöflur með öllum mat!!! Við borðuðum svo kvöldmatinn fyrir framan sjónvarpið og horfðum á Gettu betur, ég hélt með stelpuliðinu en því miður vann strákalið MR. Á morgun verður nóg að gera hjá mér: skóli, matarboð, gefa sængurgjöf, skoða skemmdan bíl o.fl. en þið fáið skýrslu annað kvöldWink


Fimmtudagur

Fór að tefla í kvöld við strætókalla, vann eina skák og tapaði einni, var ekki í stuði til að tefla. Gengur bara betur næst.

Einkunn

Ég fór í skólann í kvöld og það fyrsta sem kennslukonan gerði í tímanum var að sýna mér að ég fékk 10 í verslunarreikningsprófinuGrin  Svo fór hún að kenna okkur bókfærslu. Næsta próf verður 7.apríl.

Þriðjudagur

Ég byrjaði daginn á að vakna kl. 5:30 og fara í sturtu. Fór svo í strætófötin og var snögg að því, ég er í æfingu, líklega er ég búin að klæða mig rúmlega 3000 sinnum í einkennisföt á þessum tæpu 12 árum sem ég hef keyrt strætó. Ég var komin í Mjóddina kl. 5:57 og vagninn kom kl 5:59. Eftir að hafa farið um allt Breiðholtið var ég komin á Hestháls kl.6:20. Ég keyrði leið 12 í morgun og byrjaði kl. 6:39 í Austurberginu. Allt gekk vel hjá mér í dag og ekkert fréttnæmt gerðist. Vaktin var búin kl. 11:06 (ég var búin að lofa einn færslu á dag og ég ætla ekki að svíkja það þó að ég hafi ekkkert að segja).

Ég var með kjötsúpu í kvöldmat, prófaði að setja sætar kartöflur í hana og það kom rosalega vel út. Björgvin kom í heimsókn og hann lenti í að smakka á súpunni, held að hann hafi bara verið nokkuð sáttur, a.m.k. fékk hann sér aftur á diskinnW00t

Eftir súpusötrið fórum við Valdi í Ráðhús Reykjavíkur að horfa á síðustu umferðina í Reykjavíkurskákmótinu. Alltaf gaman að vera bara áhorfandi á skákmótum.

Og að lokum er hér betri mynd af Corollunni

Toyota Corolla Ég þarf greinilega að kaupa eða finna einn hjólkopp!

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Áslaug Kristinsdóttir

Höfundur

Áslaug Kristinsdóttir
Áslaug Kristinsdóttir

Ferðalög, fréttir, fjölgun, fjölskyldan, farartæki, fótknúin farartæki, fróðleikur, fasteignir, fjör, fermingar, fjárfestingar,

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_0001
  • Ferðalag 221
  • Ferðalag 101
  • Ferðalag 096

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband