13.8.2008 | 00:27
Bílar
Ég var að skoða pappíra hjá mér um daginn og fann þá lista yfir alla bíla sem ég hef átt. Á listanum eru 33 bílar. 1.bílinn minn var Peugeot 204 árgerð 1972. Bíll nr.2 var VW 1303 árg.´73. Bíll nr. 3 var Lada 1500 árg. 1977, sá bíll eyðilagðist í árekstri 2.júní 1981 en ég keypti mér þá bara aðra Lödu en svo kom Mazda 323 ´82. Eftir það kom langt Lödu-tímabil, en alls eru 14 Lödur á listanum, alls konar Lödur, 1200, 1300, 1500, 1600, Safír, Lux, Tópas, Sport, Samara bæði 3ja og 5 dyra og ýmis litaafbrigði. Hyundai er næst algengasta gerðin á listanum; 8 stykki. Toyota 4 stykki. Tvisvar hef ég átt Mözdu. Bara einu sinni hef ég keypt Skoda, en ég átti hann ekki lengi, því að ég var eldsnögg að selja hann eftir að það kviknaði í honum. Ég hef átt 3 Volkswagen: Bjöllu, Jettu og Póló. Af þessum 33 bílum sem eru á listanum á ég 3 ennþá, 2 Toyotur og 1 Hyundai. En Subaru sem ég keypti einn sunnudagsmorgun fyrir ca. þremur árum komst ekki á listann, því að ég seldi hann þremur klukkutímum eftir að ég keypti hann og hann fór aldrei á mitt nafn.
Ég er ekki búin að útbúa mótorhjólalista, en þegar ég var 15 ára eignaðist ég Hondu SS50 ´75. Kannski í framtíðinn verður til langur og skemmtilegur listi yfir mótorhjólin mín...
Á þessari mynd eru bílarnir sem ég er ekki búin að selja. Toyota Landcruiser, Hyundai Elantra og Toyota Corolla.
7.8.2008 | 12:07
Ferðalag
Um verslunarmannahelgina var síldarævintýri á Siglufirði. Við fórum þangað og vorum þar frá föstudegi og fram á sunnudag. Við sáum enga síld svo að við borðuðum bara lambakjöt, nema þegar við borðuðum snúða án súkkulaðis hjá Önnu og Alla. Frá Siglufirði fórum við til Ólafsfjarðar, Dalvíkur og Akureyrar. Á Akureyri voru umferðarljósin óvenjuleg:
Það var ekki leiðinlegt að lenda á rauðu á Akureyri.
Það endaði með því að við komumst í gegnum bæinn eftir að hafa lent á nokkrum rauðum ljósum og við fórum svo til Húsavíkur, þar var ekkert fjör og við kíktum í Ásbyrgi. Ekki langaði okkur að gista þar og þá fórum við til Kópaskers. Þar var stórt og flott tjaldsvæði og ekki skemmdi fyrir að við hliðina á tjaldsvæðinu er risastór verksmiðja merkt: FJALLALAMB. Við hikuðum ekki eitt augnablik, vorum ca. 4 mínútur að reisa fellihýsið og fórum svo umsvifalaust að grilla lambakjöt. Lambakjöt smakkast mjög vel með fjallalambaverksmiðju í nágrenninu. Við vorum ein á tjaldsvæðinu, fólk er væntanlega ekki búið að uppgötva þennan frábæra stað. Ekkert heyrðist í lömbunum, þau voru öll þögnuð.
Flott aðstaða, heitt og kalt vatn og sturta. En það er ekki möguleiki að eyða peningum á Kópaskeri, engin verslun, engin bensínstöð og ókeypis tjaldsvæði!!Við fórum svo frá Kópaskeri og keyðum norður Melrakkasléttuna, það var ekkert malbik á veginum en vegurinn var samt ágætur, við mættum engum bílum. Við komum svo til Raufarhafnar en þangað hafði ég aldrei komið áður. Þar sáum við bensínstöð en hún var lokuð og miði á hurðinni: "Af fenginni reynslu verður lokað um helgina en kannski opið á mánudagskvöld". Við fórum þá til Þórshafnar, þar var opin bensínstöð og við settum olíu á jeppann og fengum okkur að borða. Við tókum svo fellihýsið aftan úr jeppanum og fórum út á Langanes, ætluðum að keyra út á Font en vegurinn var frekar leiðinlegur og svo kom þoka og rigning og við snerum við eftir að hafa keyrt hálfa leiðina, en Langanesið er frekar langt. Við fórum svo til Bakkafjarðar og það er ekki mjög stórt þorp en við rákumst þar á tvo vinnufélaga okkar og var okkur boðið inn í hús og fengum við kaffi og rúsínur MEÐ súkkulaði.
Þetta er húsið á Bakkafirði sem við fórum inn í !!
Vopnafjörður var næsti bær sem við fórum til. Þar var opin bensínstöð og við fengum okkur hamborgara og ég keypti miniútgáfu af Trival persuit spurningaspilinu. Hellisheiði eystri var svo næst á dagskrá. Ég var búin að bíða lengi eftir að sjá þennan fræga fjallveg. Fyrrverandi tengdaforeldar mínir fóru þarna fyrir ca. 15 árum og töluðu mikið um hvað þetta væri bratt og stórhættulegt að keyra þarna. Ég varð því fyrir nokkrum vonbrigðum með hvað þetta var bara ósköp venjulegur fjallvegur og ég komst ekki í neinn lífsháska. En veðrið var frekar leiðinlegt, þoka og smá rigning, næst þegar ég fer Hellisheiði eystri ætla ég að vera í betra veðri og njóta útsýnisins.
Þessi mynd var tekin þegar við vorum að verða komin niður. Austfjarðaþokan truflaði myndatökur dálítið.
Við vorum komin til Egilsstaða um kl. 23 og við vorum þar um nóttina. Við fórum að sofa um 3-leytið því að við þurftum að prófa spurningaspilið sem ég keypti á Vopnafirði
Við vorum farin frá Egilsstöðum löngu fyrir hádegi og fórum stystu leið í áttina að Reykjavík, fórum yfir Öxi og á Höfn í Hornafirði stoppuðum við í ca. klukkutíma. Við komumst að því að N1 bensín stöðin er mjög vinsæl á Hornafirði, en þar er vínbúð Hornfirðinga.
Við stoppuðum aðeins við Jökulsárlónið og ég tók nokkrar myndir. Sólin skein og var á fullu að bræða jöklabrotin sem svömluðu í lóninu.
Við gistum svo um nóttina í sumarbústað í Úthlíð í Biskupstungum hjá dóttur og tengdasyni Valda.
Við fórum svo heim eftir að hafa borðað hádegismat hjá þeim og vorum komin í Blöndubakkann um hálffjögur-leytið og þá var þessu skemmtilega 1730 kílómetra ferðalagi lokið.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.8.2008 | 00:19
Lada Sport á Raufarhöfn
Fyrir ca. 15 árum seldi ég Lödu Sport, kaupandinn átti heima á Raufarhöfn. Þegar ég var á ferðalagi um Melrakkasléttuna um helgina rifjaðist það upp. Þegar við komum til Raufarhafnar var hvít og lúin Lada Sport það fyrsta sem við sáum þar, en númerin voru farin af Lödunni og ég veit ekki hvort þetta er sama Ladan og ég átti en líkurnar eru miklar
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.7.2008 | 11:43
Enn einn hjólatúrinn
Ég fór ekkert út að hjóla í gær, ég fór að keyra strætó svo snemma og þegar ég kom heim var Snædís komin í heimsókn og eiginlega meira en heimsókn, hún kom í 6 klukkutíma pössun. Foreldrar hennar fóru í sjóstangaveiði og svo út að borða, því að það veiddist ekkert í sjóferðinni.
En í morgun fór ég út að hjóla. Fyrst fór ég einn hring í kringum Garðheima, ég fór mjög varlega en það var allt rólegt og allir virtust vera annað hvort í kaffi eða sumarfríi, þannig að ég hjólaði út í Seljahverfi og þar fann ég bensínstöð. Ég þurfti ekki að kaupa neitt bensín en vaktstjórinn tók mynd af mér:
Á morgun verður svo vonandi aftur enn-einn hjólatúr
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 11:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.7.2008 | 11:39
Úðun
Ég fór í morgun og hjólaði einn Garðheimahring á gamla góða fjallahjólinu mínu, en ég varð alveg rennandi blaut, það var nefnilega verið að úða í Garðheimum. Úðunarmaðurinn hjá þeim er ótrúlega öflugur, mér finnst hann úða alltof stórt svæði út fyrir Garðheima sjálfa. Ætli það sé eitthvað afkastahvetjandi launakerfi í gangi hjá þeim? En ég og blómin höfum bara gott af smá-vökvun
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 11:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.7.2008 | 00:02
Hraðskreiðara hjól
Ég ætla ekki að lenda aftur í því að hey festist á mér, nú á sko að fara hratt framhjá Garðheimum og ef sláttumaðurinn er að störfum þá fer ég svo hratt framhjá að allt fýkur í burtu, ég er búin að kaupa mér svona hjól með mótor. Þetta er bara gamalt og ódýrt reiðhjól með mótor, en mótorinn svínvirkar. Nú verður hrikalega gaman að fara Garðheimahringinn. En kannski þarf próf á þetta hjól. Ökukennarinn ætlaði að vera búinn að boða mig í fyrsta ökutímann en hann er ekki búinn að því ennþá. Kannski best að fara til hans á hjólinu og athuga hvernig staðan er hjá honum
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 00:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.7.2008 | 08:58
Hvað á ég nú að gera?
Á ég að halda áfram að hjóla hringinn í kringum Garðheima, eða á ég að finna mér einhverja aðra leið? Hefði ég kannski átt að læra á fiðluna áður en ég byrjaði að spila á hana? Ég vil alls ekki hætta að hjóla á morgnana, þetta er svo svakalega hressandi, en hey, það eru takmörk fyrir öllu
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 10:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.7.2008 | 18:27
Spilahjól
Ég er búin að vera mjög dugleg að hjóla undanfarið, vakna alltaf snemma til að fara út að hjóla einn hring í kringum Garðheima. Þetta er rosalega hressandi. Núna er ég að hugsa um að kaupa mér fiðlu svo ég geti haft það eins og þessi maður:
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.7.2008 | 01:08
Hjólun
Ég hef undanfarna daga verið að vinna í miðasölunni á Hlemmi. Það er mjög skemmtilegt starf, ég hitti alls konar fólk. Í fyrradag kom kona sem ég kannast við og hún sagði mér að hún og maðurinn hennar væru í sumarfríi og þau gera ýmislegt skemmtilegt í fríinu. Þau eru t.d. búin að hjóla upp á Akranes, hjóluðu allan Hvalfjörðinn og fóru svo með strætó frá Akranesi til Reykjavíkur og þegar hún kom að tala við mig voru þau að bíða eftir leið 15, því að þau ætluðu með strætó upp í Mosó og hjóla þaðan til Þingvalla og gista á Hótel Valhöll um nóttina. Svo kom vagninn og hún þaut út og ég sat þarna inni í miðasölubúrinu og hugsaði um flotta hjólið með álstellinu sem ég keypti mér fyrir 4 árum og er að grotna niður í hjólageymslunni. Ég hjólaði síðast fyrir ca. einu ári og þá komst ég næstum niðrá Hlemm, leið 17 stoppaði fyrir mér og keyrði mig heim (vagnstjórinn var svo hissa að sjá mig, þess vegna stoppaði hann). En í dag (17.7) átti ég frí og ég dreif í að setja loft í dekkin á hjólinu og fór svo í einn hjólatúr. En ég fór bara stutt; niðrí Mjódd, einn hring í kringum Garðheima, framhjá Nettó og heim aftur. Þetta var dálítið erfitt síðustu metrana en það getur líka verið hollt að ganga. Ég ætla að hjóla meira á morgun. En ég er búin að sækja um áframhaldandi vinnu á Hlemmi, það er svo heilsusamlegt að tala við fólkið þar
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.7.2008 | 00:18
Gallabuxur
Snædís er búin að fá sér gallabuxur! Hún var orðin þreytt á öllum ljósbleiku smábarnafötunum. Hún skellti sér í Debenhams í Smáralindinni og þar sá hún gallabuxur sem hana langaði í. Hún suðaði í ömmu sinni og hætti ekki fyrr en buxurnar voru keyptar. Henni datt ekki í hug að fara í Gallabuxnabúðina í Kringlunni og spyrja um LeeCooper-buxur, nei hún vildi svona flottar gallabuxur með blómum
Anna, farðu bara í Debenhams og gleymdu LeeCooper
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 00:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Um bloggið
Áslaug Kristinsdóttir
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar