14.7.2015 | 11:10
Konur og bílaverkstæði
Vegna fréttar í Morgunblaðinu í dag (14.7.15) um hvernig bílaverkstæði svína á konum, rifjaðist upp fyrir mér þegar ég bað dóttur mína að fara með bíl fyrir mig á pústverkstæði. Þetta var 21.maí 2012. Ég hafði keypt Opel Astra af bróður mínum. Þegar bíllinn fór í skoðun fékk hann endurskoðunarmiða. Eitt atriðið sem gerð var athugasemd við var að það vantaði eina festingu á pústið (pústið var annars í lagi). Ég pantaði tíma á pústverkstæði og dóttir mín fór með bílinn fyrir mig. Ég lét hana hafa 5.000 kr til að borga fyrir festinguna en gerði ráð fyrir að kostnaður yrði 2-3 þúsund kr. Líklega var eitthvað lítið um verkefni á þessu pústverkstæði, dóttir mín var ljóshærð og því tilvalið fórnarlamb. Pústmaðurinn sagði henni að allt pústið væri ónýtt. Hún sagði að hún ætti ekki bílinn og gaf honum upp símanúmerið hjá mér. Maðurinn hringdi í mig og tilkynnti mér að allt pústið væri ónýtt og það þyrfti að skipta um það. Ég dró það í efa en sagði að bíllinn þyrfti að fá skoðun og bað hann að laga þetta þannig að bíllinn fengi skoðun, en það var bara sett út á að eina festingu vantaði. Ég var föst í vinnunni næsta hálftímann en hringdi í bróður minn og spurði hann um pústið undir bílnum. Hann sagði að það væri nýlegt, eitthvað í kringum 2ja ára. Ég rauk svo á pústverkstæðið um leið og ég gat en þá var búið að rífa gamla pústið undan og verið var að setja nýtt undir. Ég vildi fá að sjá gamla pústið. En þá var sagt að það væri búið að henda því í gám fyrir aftan húsið og búið væri að fara með gáminn til að tæma hann, ég gat því ekki fengið að sjá ónýta pústið! Það var búið að tæma gáminn áður en nýja pústið var komið undir! Ég sagði manninum að hann hefði verið að henda 2ja ára gömlu pústi, það gæti ekki verið ónýtt en hann staðhæfði að yfirleitt væru púst ónýt eftir tvö ár! Reikningurinn hljóðaði upp á 39.000 kr. ÞRJÁTÍUOGNÍUÞÚSUNDKRÓNUR. Mig langaði mest að hringja í lögregluna og kæra manninn fyrir þjófnað. Hann stal heilu pústi undan bílnum mínum og vildi ekki sýna mér það. Ég rétti fram VISA-kortið til að borga reikninginn og pústmaðurinn sagði þegar hann rétti mér kortið aftur: "Og eigðu góðan dag". Dagurinn var alveg ónýtur og næstu dagar líka. Ég hafði tíma til að hringja í nokkur pústverkstæði í sumarfríinu og spyrjast fyrir um kostnað við að skipta um púst undir Opel Astra. Svörin sem ég fékk voru á bilinu 21-29 þúsund. Ég mun aldrei aftur fara á þetta pústverkstæði og ráðlegg engum að fara þangað, hvorki konum né körlum.
Um bloggið
Áslaug Kristinsdóttir
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.