14.7.2015 | 11:10
Konur og bílaverkstæði
Vegna fréttar í Morgunblaðinu í dag (14.7.15) um hvernig bílaverkstæði svína á konum, rifjaðist upp fyrir mér þegar ég bað dóttur mína að fara með bíl fyrir mig á pústverkstæði. Þetta var 21.maí 2012. Ég hafði keypt Opel Astra af bróður mínum. Þegar bíllinn fór í skoðun fékk hann endurskoðunarmiða. Eitt atriðið sem gerð var athugasemd við var að það vantaði eina festingu á pústið (pústið var annars í lagi). Ég pantaði tíma á pústverkstæði og dóttir mín fór með bílinn fyrir mig. Ég lét hana hafa 5.000 kr til að borga fyrir festinguna en gerði ráð fyrir að kostnaður yrði 2-3 þúsund kr. Líklega var eitthvað lítið um verkefni á þessu pústverkstæði, dóttir mín var ljóshærð og því tilvalið fórnarlamb. Pústmaðurinn sagði henni að allt pústið væri ónýtt. Hún sagði að hún ætti ekki bílinn og gaf honum upp símanúmerið hjá mér. Maðurinn hringdi í mig og tilkynnti mér að allt pústið væri ónýtt og það þyrfti að skipta um það. Ég dró það í efa en sagði að bíllinn þyrfti að fá skoðun og bað hann að laga þetta þannig að bíllinn fengi skoðun, en það var bara sett út á að eina festingu vantaði. Ég var föst í vinnunni næsta hálftímann en hringdi í bróður minn og spurði hann um pústið undir bílnum. Hann sagði að það væri nýlegt, eitthvað í kringum 2ja ára. Ég rauk svo á pústverkstæðið um leið og ég gat en þá var búið að rífa gamla pústið undan og verið var að setja nýtt undir. Ég vildi fá að sjá gamla pústið. En þá var sagt að það væri búið að henda því í gám fyrir aftan húsið og búið væri að fara með gáminn til að tæma hann, ég gat því ekki fengið að sjá ónýta pústið! Það var búið að tæma gáminn áður en nýja pústið var komið undir! Ég sagði manninum að hann hefði verið að henda 2ja ára gömlu pústi, það gæti ekki verið ónýtt en hann staðhæfði að yfirleitt væru púst ónýt eftir tvö ár! Reikningurinn hljóðaði upp á 39.000 kr. ÞRJÁTÍUOGNÍUÞÚSUNDKRÓNUR. Mig langaði mest að hringja í lögregluna og kæra manninn fyrir þjófnað. Hann stal heilu pústi undan bílnum mínum og vildi ekki sýna mér það. Ég rétti fram VISA-kortið til að borga reikninginn og pústmaðurinn sagði þegar hann rétti mér kortið aftur: "Og eigðu góðan dag". Dagurinn var alveg ónýtur og næstu dagar líka. Ég hafði tíma til að hringja í nokkur pústverkstæði í sumarfríinu og spyrjast fyrir um kostnað við að skipta um púst undir Opel Astra. Svörin sem ég fékk voru á bilinu 21-29 þúsund. Ég mun aldrei aftur fara á þetta pústverkstæði og ráðlegg engum að fara þangað, hvorki konum né körlum.
Dægurmál | Breytt 7.9.2015 kl. 06:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.8.2013 | 23:25
Ferðalag
Þriðjudaginn 13. ágúst 2013 klukkan 15:30 lögðum við af stað í ferðalag með fellihýsið sem við keyptum núna í sumar. Besta veðrið var fyrir norðan, svo við byrjuðum á að fara á Blönduós. Þar er mjög gott tjaldsvæði og við komum okkur fyrir á skjólgóðum stað: Það var reyndar ekkert rok. Þarna sváfum við alveg ágætlega. Þegar við vöknuðum morguninn eftir, fengum við okkur kaffi og héldum svo ferðalaginu áfram. Allt í einu vorum við komin til Akureyrar. Í Síðuhverfinu býr einn sem við könnumst við: Valdimar Daníelsson í íbúð 103. Hann var ekki heima þegar við komum en við hittum hann ofar í götunni þar sem hann var að hjálpa vini sínum að flytja. Hann lánaði okkur lykla svo við kæmumst inn í íbúðina hans og gátum við fengið okkur kaffi hjá honum. Við kíktum í tölvuna hjá honum og sáum að það var alveg ágætis-veður á Langanesi. Við kvöddum Valda og héldum ferðalaginu áfram. En fólk er alltaf að tala um hvað sé hægt að fá góðan ís á Akureyri, þannig að við komum við í Leirunesti á leiðinni út úr bænum og fengum okkur góðan ís:Reyndar stoppuðum við líka aðeins við Hof, þar sá ég svo flottan strætisvagn:leið 56.
Næsta stopp var á Húsavík, þar var ýmislegt skemmtilegt að sjá, t.d þetta bílaverkstæði:En bíllinn var ekki orðinn bilaður á þessum tímapunkti og við yfirgáfum Húsavík eftir að hafa fyllt tankinn af olíu.
Við Ásbyrgi stoppuðum við í smástund á góðum stað:Á strætóstoppistöð!! Það kom enginn vagn svo við héldum áfram og vorum komin til Þórshafnar um kl.20.
Við vorum ekki lengi að finna tjaldsvæðið í þessu flotta þorpi:Rukkari kom fljótlega og lét okkur borga 800 kr á mann og 600 fyrir rafmagnið. Við fórum svo í bíltúr um staðinn og ég fann Volvo sem var svo ryðgaður að það verður eiginlega að henda honum sem fyrst, ég skil ekki hvers vegna hann virðist hafa fengið fulla skoðun á þessu áriHeld að ég hafi einu sinni hent minna ryðguðum Volvó!
Þetta hús er á Þórshöfn. Ansi skemmtilegt nafn á húsinu!
Tók nokkrar myndir við höfnina. Veðrið hefði ekki getað verið betra.
Daginn eftir fórum víð út á Langanes. Takmarkið var að fara alla leið út á Font, 51 km frá Þórshöfn, sá vegur er langt frá því að vera malbikaður Við komumst þangað og ég tók nokkrar myndir:
Valdi tók mynd af mér við Langanesvita, það var smá-gola en annars mjög gott veður. Mjög skrítin tilfinning að vera þarna lengst úti á Langanesi. Þarna er gaman að taka myndir, alls konar myndefni: rekaviður, fuglabjörg, kindur og margt fleira.
Ca. 11 km frá Fonti er vegur sem liggur þvert yfir Langanes, yfir í Skála, en þar var byggð, sem fór í eyði 1955. Við fórum þangað og sáum rústir húsanna.
Bryggjan:
Þarna er neyðarskýli. Mér fannst mjög fróðlegt að koma á þennan stað og finnst alveg ótrúlegt að fyrir tæplega 100 árum bjuggu 117 manns þarna. Árið 1955 flutti fólk frá staðnum og hefur hann verið í eyði síðan. Þegar við komum aftur til Þórshafnar hittum við Fríðu, móðursystur mína, Jóhann manninn hennar og Ásdísi systur hans, þau voru að undirbúa sig fyrir útilegu í Skálum, ætluðu að vera þar í 3-4 daga. Jóhann og Ásdís fæddust þarna og bjuggu til ársins 1955. Skemmtileg tilviljun að hitta þau þarna.
Á Langanesi kviknuðu ljós í mælaborðinu á Krúsa. Ljósin bentu til að bíllinn væri hættur að hlaða. Okkur leist ekki á blikuna en þá vorum við ca. 49 kílómetra frá Þórshöfn, en við keyrðum til baka án þess að stoppa og komumst alla leið. Rafmagnið virtist ekkert hafa minnkað svo við vorum að vona að þessi ljós væru bara eins konar tímavillt jólaljós. Við héldum því ferðalaginu áfram og stefnan var sett á Egilsstaði. Við fórum stystu leið, sem sagt Hellisheiði eystri, það er flottur vegur.
Á Egilsstöðum sáum við strætóinn sem ég tók mynd af á Akureyri! En hann fór ekki sömu leið og við, á milli Akureyrar og Egilsstaða. Þegar við vorum búin að fá okkur að borða á Egilsstöðum, héldum við áfram í áttina til Reykjavíkur. Jólaljósin í mælaborðinu voru að trufla okkur. Við fórum Öxi og lentum í mikilli austfjarðaþoku þar, svo mikilli að ég reyndi ekki að taka myndir af henni. Þegar við komum á Djúpavog, var tjaldsvæðið eiginlega fullt. Við héldum áfram og vorum komin til Hafnar í Hornafirði um miðnætti. Við komum okkur fyrir þar en allt rafmagn var tekið af Austur-Skaftafellssýslu á miðnætti og var rafmagnslaust til kl. 7 um morguninn. Ég náði ekki mynd af rafmagnsleysinu. En um morguninn kom meira rafmagnsleysi... Krúsi hafði ekki rafmagn til að komast í gang, auk þess var gasið búið hjá okkur svo við gátum ekki hitað okkur vatn til að hella upp á kaffi. Þetta var ekkert sérstaklega góð tilfinning. En Valdi dó ekki ráðalaus, hann hringdi í mann sem kom og gaf okkur start. Eftir smá skoðun á alternatornum kom í ljós að vafningarnir í honum voru brunnir, sem sagt alternatorinn ónýtur. Startmaðurinn sagði okkur að það væri örugglega ekki til alternator í bílinn okkar á Höfn, en það væri lítið mál að láta senda varahluti með flugi! Við vorum ekki alveg í stuði til að bíða eftir fljúgandi alternator og fórum á N1 og keyptum okkur gas. Við gátum þá hellt upp á kaffi. Eftir að hafa drukkið töluvert kaffi og hugsað smá, ákvað Valdi að kaupa rafgeymi. N1 seldi okkur eitt stykki á 26 þús.kr. Við felldum fellihýsið, hengdum það aftan í Krúsa og yfirgáfum Höfn með jólaljós í mælaborðinu og rafgeymi í skottinu. Ekki vorum við komin nema 62 kílómetra þegar Krúsi drap á sér, rafmagnið alveg búið, þá var náð í nýja rafgeyminn og hann settur í. Við vorum ekki á neitt sérstaklega góðum stað en veðrið var gott!
Rafgeymaskipti. Svo var bara keyrt af stað og við brunuðum framhjá Jökulsárlóni, undir venjulegum kringumstæðum hefðum við stoppað þar. Ég lét rúðuna síga aðeins og tók mynd út um gluggann á fleygiferð
en fékk þá áminningu frá Valda: Rúðuupphalarinn eyðir rafmagni!.
Þá tók ég innimynd og pakkaði svo myndavélinni niður. Ég minnti hann á að stíga ekki á bremsurnar, því þá kviknuðu bremsuljós og þau eyða rafmagni. Valdi stoppaði samt í Kirkjubæjarklaustri til að teygja úr sér, svo héldum við áfram. Næsta stopp var í Vík. Þar settist ég undir stýri. Við keyptum Rain-x og settum það á framrúðuna, en á köflum var rigning og við gátum sparað rafmagn með því að nota rúðuþurrkurnar sjaldnar. Við vorum ákveðin í að komast alla leið heim. Við stoppuðum á Hvolsvelli, settum 20 lítra á tankinn. Við vorum ekkert að tefja okkur við að setja meira á hann. Þetta var eiginlega eins og í Formúlu 1, nokkrum lítrum dælt á og spólað af stað!
Klukkan 15:00 lentum við í Blöndubakkanum og mikið svakalega vorum við fegin að komast heim. Fagnaðarlætin í okkur voru svo mikil að ég gleymdi að taka mynd.
Það er alveg ómögulegt að hafa Krúsa bilaðan svo ég hringdi á nokkra staði, sem selja alternatora: Í umboðinu er hægt að fá uppgerðan skipti-alternator á 94.070 krónur. Rafstilling selur uppgerða alternatora á 40.000 kr en áttu ekki neinn til í augnablikinu. Ljósboginn átti til glænýjan alternator á 39 þús kr.! Valdi var snöggur að kaupa hann.
Krúsi verður svo fljótlega tilbúinn í næsta ferðalag, en hvert við förum á eftir að koma í ljós.
Dægurmál | Breytt 18.8.2013 kl. 19:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.8.2013 | 10:58
Akureyri
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.7.2013 | 13:12
Galtarholt
Fórum á laugardaginn í hjólhýsið okkar sem er jarðfast í hjólhýsahverfinu í Galtarholti. Keyptum Kjörvara til að bera á viðinn. Það var búið að vera þurrt í nokkra daga og ég byrjaði að bera á sólstofuna
Svona kemur þetta út. Daginn eftir ætlaði ég svo að halda áfram að bera á en það var eyðilagt fyrir mér. Um morguninn kom svo mikil rigning að við höfum aldrei séð annað eins. Auk þess komu þrumur og eldingar. Ég hrökk upp kl. 7:02 við fyrstu þrumuna, svo koma a.m.k. 2 í viðbót. Við drifum okkur heim fljótlega eftir hádegi og kjörvarinn bíður betri tíma.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.7.2013 | 09:52
Loksins, loksins!
Loksins, loksins ný blogfærsla.
Allt hefur gengið vel hjá mér undanfarin ár. Ég á 3 bíla, 2 fellihýsi og 1 hjólhýsi.
Barnabörnin verða bráðum tvö. Snædís er orðin 5 ára og frændi hennar fæðist eftir nokkra daga. Ég set inn næstu færslu fljótlega....
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.10.2011 | 10:29
Jeppaferð
1. október fóru nokkrir félagar í St.SVR í dagsferð á jeppum. Fararstjóri og skipuleggjandi ferðarinnar var Sigurlaugur Þorsteinsson. Leiðangursstjóri var Kjartan Kópsson. Við hittumst kl. 9 um morguninn að Hesthálsi 14, þaðan var farið til Hvolsvallar. Eftir að fólk var búið að fá sér hressingu, fylla eldsneytistankana og taka fullt af myndum af öllum jeppunum, var lagt af stað. Sigurlaugur fór með okkur í Fljótshlíðina, upp með Tumastöðum í átt að Heklu.
Jepparnir voru af ýmsum tegundum: Toyota Landcruiser (3 stk.), Toyota Hilux, Mitsubishi Pajero, Nissan Patrol, Ford Econoline, Hyundai Santa Fe, SsangYong Actyon, Kia Sportage og síðast en ekki síst: Cadillac Escalade!
Kia-jeppinn var aðeins að stríða eiganda sínum og hætti allt í einu að hlaða. Eftir eitt stoppið neitaði Kian að vera í gangi (alveg rafmagnslaus) og Dóri á flotta Fordinum dró hann að næsta viðkomustað. Þar var ákveðið að skilja Kiu og Nissan eftir en hinir héldu áfram. Allur hópurinn hittist svo við Hrauneyjar um hálfsex-leytið, þá kom í ljós að bilunin í Kíunni var ekki alvarleg; vír hafði losnað og eftir að hann var tengdur aftur byrjaði bíllinn að hlaða sig.
Örlítill snjór var á hluta leiðarinnar, en við létum það ekki trufla okkur.
Við kíktum á Ljótapoll. Magnús formaður var ekki lofthræddur og dansaði á brúninni fyrir okkur hin sem vorum með myndavélar.
Á þessari mynd eru f.v.: Júlía, Áslaug og Ester. Þess má geta að Júlía og Áslaug voru einu kvenbílstjórarnir í þessari ferð.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 13:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.11.2010 | 12:35
Mikill léttir
Jæja, nú er vika síðan steinarnir og öll gallblaðran var tekin úr mér.
Heildarþyngd mín snarminnkaði en fituinnihald mitt er samt svipað og áður.
Ég svíf um allt, svona steinalaus og þori varla að fara út í mikið rok.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.11.2010 | 10:52
Frestað vegna jarðarfarar...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.10.2010 | 16:02
Steinaúrtaka
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
6.5.2010 | 18:57
Halló!
Það er kominn tími til að setja eitthvað nýtt hérna.
Ég ætla að drífa í því fljótlega...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Áslaug Kristinsdóttir
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar